Fjörðurnar, fjalllendið og fegurðin í augum Hermanns Gunnars

Að sumarlagi árið 2016 er gönguhópur staddur á Skriðuhrygg í Bjarnarfjalli. Þau eru meðal annars að ganga um Fjörðurnar vinsæla gönguleið á Norðurlandi. Það er rigning og svarta þoka. Stendur nú til að leggja í Bjarnarfjallsskriður til Hvalvatnsfjarðar. Skriðurnar eru varasamar í björtu og hvað þá í svarta þoku! Hópurinn er að koma í áföngum austan úr Kinn og ætla nú ferðalangar áfram vestur og inn Látraströnd til Grenivíkur. Rigningin bylur á leiðangursmönnum, talsverður vindur  og skyggni er aðeins örfáir metrar. Leiðangursmenn telja sig vera á réttum stað til að leggja í skriðurnar, áætla að svo sé út frá GPS-punkti af leiðarlýsingu úr bókinni Fjöllin í Grýtubakkahreppi eftir Hermann Gunnar Jónsson, þau eru með ljósrit úr bókinni en koma ekki auga á götuna út í skriðuna og færa sig því örlítið neðar. Það virðist hinsvegar ekki koma að sök, gatan er hvergi sjáanleg. Menn stara út í sortann og velta vöngum yfir því hvort að rétt leið hafi verið valin. Tekur nú einn ferðalangur upp síma og hringir í höfund bókarinnar. Hermann Gunnar er vel kunnugur á þessum slóðum og áttar sig fljótlega á því að GPS-punkturinn sem þau gengu að, sem upphafspunkt leiðarinnar var hinn rétti. Tiltekinn steinn staðfesti það, en engin er gatan á þessum stað. Því er ekkert annað hægt að gera en að leggja í skriðuna og þræða punktana úr bókinni áfram í þeirri von að ekkert hafi brugðist í skrásetningunni. Um síðir fær Hermann Gunnar aftur hringingu og þá með þeim ánægjulegu tíðindum að ferð hópsins um skriðuna hafi gengið vel og GPS-hnitin skiptu sköpum í ferðalaginu um þrælbrattar Bjarnarfjallsskriðurnar.

Upphafið

IMG_1857 (1).JPG

Hermann Gunnar er búsettur á Grenivík í Grýtubakkahreppi og má segja að fjalllendið sem lýst er í bókinni sé í bakgarðinum. Hann viðurkennir að hafa stundað útivist alla tíð, ólst upp á Hvarfi í Bárðardal við það að hlaupa á eftir kindum og hefur frá upphafi verið mikill hestaáhugamaður. Sveitin og fjöllin hafa alltaf verið hluti af mér.“  Um 2007 byrjaði Hermann Gunnar að labba á fjöll að einhverju marki og þá aðallega upp á fjöllin við Grenivík. Í upphafi hafði hann það fyrir reglu að skrá örlitla leiðarlýsingu niður í tölvu og lét þá track fylgja og ljósmyndir. Árið 2009 langaði mig svo að gera eitthvað markvisst í fjallgöngunum, búa mér til verkefni.  Þá hafði Hermann verið að fylgjast með Olla (Þorvaldi Þórssyni) í svokölluðu 100 tinda verkefni. Þá datt mér þetta í hug og fannst spennandi að labba á öll fjöllin í Grýtubakkahreppi.“  Svo leið tíminn, Hermann gekk á hvert fjallið á fætur öðru en var svo ólánsamur að fá í bakið á einhverjum tímapunkti og varð því að hvíla fjallaverkefnið í eitt ár. Síðar hélt hann áfram ótrauður og gaf svo út bókina Fjöllin í Grýtubakkahreppi árið 2016 eftir mikla vinnu og yfirlegu. Það voru þeir pabbi gamli og félagi minn Jóhann Helgason sem hvöttu mig til að láta slag standa og gefa út bók.

Vinnsla bókarinnar

Í formála bókarinnar kemur Hermann Gunnar inn á það að nær allar ferðirnar var hann einn á ferð, fyrir utan tvisvar sinnum. Þegar hann er inntur eftir því hver ástæðan er svarar hann að það hafi meðal annars komið til af því að hann er sjómaður og þá í góðri aðstöðu til að grípa góða daga hvort sem þeir eru virkir eða helgardagar. Einfarinn þarf heldur ekki að sníða sínar ferðir að öðrum heldur stekkur til þegar vel hentar þó aðrir séu við verk. Hermann Gunnar segir að sjómennskan og fjallamennskan fari ágætlega saman. Hann hafi nýtt tímann í landi til að ganga á fjöllin, taka myndir og skrá niður stuttar ferðalýsingar en mánuðurnir úti á sjó fóru í það að skrifa bókina að nokkru leyti, liggja yfir myndum, kortum og texta.

Einveran

Þá leikur mér forvitni á að vita hvort honum hafi aldrei leiðst í þessu fjallabrölti sínu, einsamall. Hermann fullyrðir að svo hafi aldrei verið, kyrrðin og fegurðin í íslensku landslagi sé í sjálfum sér einstakur félagsskapur og óþarfi að láta sér leiðast. Auk þess bendir hann á að næmnin fyrir landslaginu og umhverfinu verði örugglega meiri þegar menn eru einir á ferð, ...allt vekur eftirtekt til dæmis lykt, litir, dýr og gróður. En hvað með ótta eða hræðslu? - Það er ekki á allra færi að ferðast um að vetri, jafnvel í snjóflóðaaðstæðum eða yfir hættulegar eggjar og fjallaskörð að sumri. Hermann svarar því til að hann sé í eðli sínu varfærinn maður og taki ekki neinar áhættur, ef hann telji varasamt að leggja af stað eða að leggja í ákveðnar leiðir milli tinda þá snúi hann heldur við, lækki sig frekar en að tefla í tvísýnu. Það hafi til dæmis nokkrum sinnum komið fyrir að hann hafi snúið við. Þá bendir hann á nokkur atriði sem hann kann vel að meta við að vera einfari. Engar málamiðlanir um brottför, ferðahraða, leiðarval, nægur tími í myndatökur og ósnortnar myndir.  

Árstíðirnar

20140502_155243.jpg

Hermann Gunnar lýsir því að í upphafi hafi hann mest gengið á fjöll á veturna og kom það helst til af því að á sumrin stundaði hann hestamennsku. Þá bendir hann á að haustið sé yndislegt og hafi einstakan sjarma, haustlitirnir, kyrrðin og hreinleikinn heilla. Hann viðurkennir að labba stundum á þrúgum þegar við á og örlítið hefur hann prófað skíði, en ekki mikið. Þá er spurt hvernig göngunni er háttað þegar menn eru einir á ferð. Hættir honum ekki til að fara of hratt yfir? Hermann Gunnar svarar því að hann sé oft á tiltölulega miklum hraða upp og niður og kannski of oft að flýta sér. Nú sé hann hinsvegar búinn að setja sér það sem markmið að njóta og reyna að gera sér far um að flýta sér hægt, allavega stundum. Að stoppa á tindinum og fá sér grasstrá til að tyggja. En auðvitað er þessu öðruvísi farið þegar fleiri eru með í för, þá taka menn tillit til allra.

Fjallaverkefnið - uppáhaldsferð

Nú leikur mér forvitni á að vita hvaða ferðir stóðu upp úr í fjallaverkefninu? - Hermann Gunnar er ekki lengi að svara því. Hann bendir á að ferðin á Bollafjall hafi í sjálfum sér verið einstök. Hún var farin á hans uppáhaldstíma, seint að hausti, stjörnubjart veður þegar lagt var af stað , gránað í fjöll, snjóföl á fjallatoppum og logn. Leiðin eftir Bollafjalli er tilkomumikil og einstaklega heillandi. Fyrir mann í þessum gír var þetta einstakt og krefjandi og það er einmitt það sem gerði ferðina svo skemmtilega.

Uppáhaldsfjöll

Næst spyr ég Hermann Gunnar hvort hann eigi sér ekki einhver uppáhaldsfjöll? Hann lætur hugann reika í örlitla stund og svarar svo að oftast fari hann á Laufáshnjúk og því ekki úr vegi að nefna hann sem eitt af uppáhaldsfjöllunum. Þangað sé gott að sækja stutta og snarpa fjallgöngu. Þá fari hann frá gömlu brúnni yfir Fnjóská og upp að austan. Auk þess er Lómatjarnarröndin á Skessuhrygg ein af þessum uppáhaldsleiðum. Hún er jafn brött alla leið upp og gil á báðar hendur, jarðvegurinn er fjölbreyttur, frábær fjallganga og falleg leið. Að síðustu nefnir Hermann Gunnar fjallgöngu á Kaldbak og Útburðarskálarhnjúk norðan frá. Það telur hann vera einkar tilkomumikla leið og nokkuð bratta. Þessi leið virkar ófær séð af Kaldbak en hún er það í raun ekki. Þessi fjöll telur Hermann Gunnar standa upp úr en auðvitað er erfitt að velja eitt fjall fram yfir annað, það hljómar nánast eins og að gera upp á milli barnanna sinna.

...og framtíðin

Að lokum rukka ég hann um næstu verkefni. Hvað liggur fyrir, hvað er næst á dagskrá? Hermann Gunnar er ekki lengi að svara því. Næsta verkefni felst í því að ganga austurhlutan á Gjögraskaganum. Skaginn, norðan Víkurskarðs og Ljósavatnsskarðs. Þá er hann ekki búinn að gera það upp við sig hvort að hann muni fylgja því verkefni eftir með bókarútgáfu en útskýrir að hann gangi frá ferðunum í tölvuna þannig að auðvelt verði að vinna þær yfir á bókarform. Hermann Gunnar er nú þegar búinn að fara í fimm ferðir og sér það fyrir sér að fara í sex til átta langar dagsgöngur til viðbótar og svo einhverjar styttri göngur, - semsagt spennandi tímar framundan og annað markmið, sem vert er að fylgjast með, innan seilingar hjá þessum ötula göngumanni.