Heimsendir er í nánd, - nema þið
unga fólkið reddið málunum.
Nokkurn veginn svona hljómaði inntak frétta á síðari hluta 20. aldar. Ekki á hverju kvöldi, en nógu oft til að boðskapurinn næði til flestra á Íslandi. Líka til unglinganna sem horfðu á Glæstar vonir (e. The Bold and The Beautiful) og hlustuðu á hljómsveitir eins og Radiohead. Lög þeirrar hljómsveitar rímuðu reyndar furðu vel við senur sápuóperunnar. Lagið Fake Plastic Trees fjallar til dæmis um fólk úr plasti sem býr í plastheimi. Óekta, rétt eins og persónurnar þáttanna. Í texta lagsins er lágstemmd gagnrýni á þá lifnaðarhætti sem hinum raunverulega heimi steðjar ógn af: neysluhyggju og óumhverfisvænum lifnaðarháttum á kostnað komandi kynslóða.
Nú eru loftslagsmálin til umræðu í fréttum sjónvarpsins nær daglega. Hitastig jarðar hækkar, ísinn á Norðurpólnum hopar og veðrið er undarlegt. Ungmenni síðustu aldar eru löngu vaxin úr grasi. En er einhver þarna úti að „redda málunum“?
Fyrirtækið Vistorka tók til starfa í júní árið 2015. Stofnar fyrirtækisins liggja víða, meðal annars til Atvinnuþróunarfélags Eyjafjarðar, Akureyrarbæjar og Norðurorku. Hér á eftir fer viðtal við Guðmund Hauk Sigurðarson, framkvæmdastjóra Vistorku um tilgang fyrirtækisins og framtíðarsýn í orkumálum. Sigurður Ingi Friðleifsson, meðstjórnandi Vistorku lagði einnig orð í belg áður en hann þurfti að rjúka í flug (sem síðar verður kolefnisjafnað).
Markmið Vistorku er að stuðla að framleiðslu umhverfisvæns eldsneytis með sjálfbærri nýtingu hráefnis sem fellur til á svæðinu. Auk þess kannar fyrirtækið mögulega nýtingu á þeim hliðarafurðum sem framleiðslunni tengjast.
,,Við erum að reyna að útskýra hvað þýðingu það hefur að endurvinna. Það að halda á áldós og velja flokkun eða urðun, bara sú ákvörðun hefur áhrif.“
Vistorka vinnur í lausnum. Eitt af verkefnum framtíðarinnar er svokallað flugskógaverkefni. Þá mun fólk geta kolefnisjafnað flugferðir sínar með einu sms-i. Fyrir hvert sms verður ákveðnum fjölda af trjám plantað. Þannig leggur Vistorka lausnir í umhverfismálum upp í hendur fólks þar til það hefur enga afsökun fyrir því að gera ekki neitt.
Hver er framtíðarsýn Vistorku til næstu tuttugu ára? Guðmundur segir það ekki óraunhæft markmið að Akureyri verði orðin kolefnishlutlaus bær fyrir árið 2030. Almenningssamgöngur eru smám saman að verða umhverfisvænni. Fyrsti metan strætisvagninn kom árið 2017 og von er á fyrsta umhverfisvæna leigubílnum innan skamms. Við þetta bætist rafbíla- og metanbílavæðingin hjá almenningi. Í kjölfarið munu fyrirtæki fylgja á eftir og bjóða neytendum upp á allskyns lausnir í orkumálum í takt við breytta tíma. Hleðslustöðvar verða víðar og fyrirtæki munu bjóða upp á rafmagn í vinnunni.
„Við erum stundum kallaðir kolefnislöggurnar. Komum, gefum rauða spjaldið og minnum á það sem betur má fara.“
Fram hefur komið í fjölmiðlum að Donald Trump, einn valdamesti maður heims, trúi ekki á loftslagsbreytingar af mannavöldum. Hvaða þýðingu hafa niðurstöður forsetakosninganna fyrir framtíð Jarðar í umhverfismálum að mati Guðmundar og Sigurðar? Guðmundur segir að hvað Ísland varði þá líti umhverfismálin vel út. En ef umhverfismálin eru skoðuð hnattrænt og horft til ríkja eins og Indlands og Kína, þá flækjast málin. Sigurður segir það þó vekja bjartsýni að nýorka sé nú orðin sjálfstætt, svalt og samkeppnishæft afl. Staðan sé í rauninni búin að umpólast. „Tesla rafmagnsbílar, vindmyllur,... þetta er bara að verða veruleikinn.“ Það gæti þó orðið örlítið bakslag í kjölfar þess að Trump situr nú í forsetastóli. Olíuiðnaðurinn fær þá ef til vill byr undir báða vængi. Þeir Guðmundur og Sigurður vona þó að forsetinn muni lenda á vegg með fyrirætlanir sínar og sjái að nú séu breyttir tímar. Hér má nefna að lækkun olíuverðs í heiminum hafði ekki neikvæð áhrif á sölu rafmagnsbíla. Neytendur eru einfaldlega orðnir meðvitaðri og horfa ekki eingöngu á verðið. Nú bætast við loftslagsáhrifin, hinn raunverulegi kostnaður.
Þessi pistill hefur áður verið birtur á: www.gutto.is