Í fótspor risaeðlunnar

Böbbi er afskaplega viðkunnalegur fír sem meðal annars kom að og stóð fyrir hinni margrómuðu Telemarkhelgi sem haldin var í Hlíðarfjalli ár hvert á árunum 2000 - 2010. Hann er einn af þeim örfáu sem enn stunda telemark og gefur fjallaskíðurunum ekkert eftir í hraða og tækni.

Á sínum tíma náði telemarkið töluvert mikilli útbreiðslu hér á landi en nú má segja að þeir sem stunda þennan skíðastíl feti sig í fótspor risaeðlunnar. - Ekki er úr vegi að forvitnast um hans innkomu í Fjallaskíða- og telemark keppnina “Hleypt brúnum” 2019.


Hvernig hófst skíðaferillinn? - Hversu lengi hefur þú stundað skíði?

Ég man í raun ekki eftir mér öðruvísi en á skíðum, svigskíðum það er að segja. Um tvítugt, eftir að hafa látið skíðin eiga sig á unglingsárunum, kynntist ég telemarki og hef verið á þeim að mestu síðan. Svig- og fjallaskíðunum tengdist ég að nýju við störf mín í Hlíðarfjalli á sínum tíma.

Nú segja kunnugir að þú sért jafnvígur á fjallaskíðum og telemarkskíðum, en þú ert búinn að taka ákvörðun um að keppa á telemarkinu, - er það ekki erfiðara?  

Það reynir talsvert meira á lappirnar að vera á telemarkinu, sér í lagi þegar færið er hart.  Svig- og fjallaskíðin eru mun öflugri að öllu leyti og “fyrirgefanlegri”.

Þetta er því ákveðinn “nördismi” en eitt sem telemark skíðin hafa umfram er hvað það er mun þægilegra að vera á þeim þegar maður er með lítil börn.

IMG_5549.jpg

Hefur þú tekið þátt í svipaðri keppni áður?

Nei, og hlakka mjög til að hitta aðra “skinnara”.

Hvað með leiðarvalið, ferðu í lengri eða styttri vegalengdina í “Hleypt brúnum”?



Klárlega lengri vegalengdina …. engin ástæða til annars en að reyna að njóta og fá sem mest fyrir peninginn.

Svo nokkrar spurningar um búnað: - Á hvernig skíðum ætlar þú að keppa?

Eins og er á ég bara eitt par af skíðum með telemark bindingum, Line Sick Day 95. Skemmtileg skíði sem halda vel kanti í braut og standa sig mjög vel utanbrautar.

Hvaða bindingar notar þú?


Rottefella Freedom. NTN bindingar sem ég skipti yfir á fyrir nokkrum árum.

Á síðustu árum hafa komið fram fleiri bindingar sem styðja við NTN og einnig áhugaverðar ‘tech’ telemark bindingar.

Hvaða skíðaklossar reynast best á telemarkinu?

Ég er á mjög skemmtilegum og þægilegum skóm frá Scott. Virkilega vel smíðaðir og öll smáatriðin vel útfærð, enda var Paul Parker hönnunarteyminu innan handar á sínum tíma.




En það skemmtilega við telemarkið er að það er hægt að fá allt frá nettum leðurskóm með klassísku 75 mm tánni, upp í háa og stífa plastskó bæði með 75 mm tá og NTN, allt eftir því hvað á að gera með búnaðinum.

…og þá er Böbbi þotinn út í blíðuna tilbúinn í að hleypa brúnum í Hlíðarfjalli 16. mars næst komandi og taka þátt í skíðaglaumi og - gleði.