Ég heyrði það í holum rómi samviskunnar: Hvert er þitt land?

Ida Pfeiffer og Ina von Grumbkov komu í ólíkum tilgangi til landsins. Ida var austurrísk en Ina var þýsk. Það er merkilegt að rýna í aðkomu kvennanna tveggja að landinu og þeirri sýn sem þær draga upp af landi og þjóð og ekki síður rannsóknarefni að skoða þann persónulega blæ sem þær ljá skrifum sínum.

Ástæðurnar fyrir Íslandsferðum kvennanna tveggja voru eins og áður sagði ólíkar. Annarsvegar ævintýraþrá austurrískrar konu sem þráði ekkert heitar en að skoða ókönnuð lönd og upplifa nýjar víddir og hinsvegar sorgarferð þýskrar konu sem leitaði svara við dauða ástvinar.

Ida Pfeiffer hefur verið nefnd fyrsti kvenkyns landkönnuðurinn en hún kom til landsins árið 1845. Hún var fædd í Vín árið 1797 og varð fljótlega þekkt fyrir ferðalög. Á ferðum sínum um heiminn skrifaði hún bækur, einskonar ferðalýsingar sem voru svo þýddar á fjölmörg tungumál. Eftir ferð Idu til Landsins helga árið 1843 ákvað hún að koma til Íslands. Hún undirbjó ferð sína til landsins vel, las sér til um land og þjóð og gerði sér far um að bæta við þekkingu sína í ensku og dönsku, þar sem hún taldi að sú kunnátta gæti nýst sér vel á ferð sinni um landið. Hún var afar spennt fyrir ferðalaginu og lét þau orð falla að þar vonaðist hún ,,til þess að líta fyrirbæri er fylltu mig óþekktri, ólýsanlegri undrun.” Þarna myndi bernskudraumur Idu loksins rætast. Þegar hún svo loks kom til landsins ferðaðist hún um Ísland í tvo og hálfan mánuð og heimsótti marga staði á suður- og suðvestanverðu landinu. Auk þess gekk hún á Heklu og varð þar með sennilega fyrsta konan til að klífa það fjall. Sú reynsla virtist hafa töluverð áhrif á hana þar sem hún lýsir í bókinni upplifun sinni svona:

“Héðan af Heklutindi gat ég horft yfir óbyggðir landsins, – myndin af sköpunarverki, dauð og hreyfingarlaus en þó svo einstaklega stórfengleg…”

Ida Pfeiffer

Ida Pfeiffer

Ida gerði hinsvegar lítið af því að kynnast landinu í heild eða þjóðinni sem slíkri og þeim þjóðháttum sem hér ríktu. Hún lagði sig meira fram um að umgangast heldri manna stéttina sem hér réði ríkjum, en vandamálið var að þar var hún ekki talin gjaldgeng. Hún var kona ef erlendum ættum og litin hornauga fyrir óþrjótandi ævintýraþrá og furðulegt áhugamál. Hún lýsti Íslendingum sem heimóttarlegum og ósnyrtilegum og lagði það jafnvel frekar á sig að gista í kirkjum heldur en moldarkofunum sem alþýðan hírðist í. Ef til vill kunni hún ekki að umgangast Íslendinga sem voru þónokkuð mikið frábrugðnir öðrum þjóðum, en svo má líka velta því fyrir sér hvort hún hafi hreinlega verið hrædd við Íslendinga.

Aðkoma og tilgangur ferðar Inu von Grumbkov var allt annar en Idu. Ina var fædd í Övelgönne við Hamborg 1872. Hún lagði upp í ferð til landsins í kjölfar fráfalls unnusta síns sem kom hingað til lands árið 1907. Jarðfræðingurinn Walter von Knebel, unnusti Inu var í forsvari fyrir rannsóknir sem framkvæmdar voru í Öskjuvatni ásamt málaranum Max Rudloff og jarðfræðinemanum Hans Spethmann. Þeir Walter og Max voru við rannsóknir í vatninu þegar þeir hurfu en mestar líkur eru taldar á að þeir hafi drukknað, annaðhvort vegna þess að þeir voru á lekum bát eða vegna skriðu úr fjöllunum austanmegin við vatnið. Hans var við rannsóknir í fjöllunum þegar atburðurinn átti sér stað en nokkru síðar sendi hann Inu skilaboð um hvarf unnusta hennar. Ina varð felmtri slegin við tíðindin. Til stóð að hún færi með Walter í Íslandstúrinn en þegar til kom hlustaði hún á úrtöluraddir samferðamanna sinna, en á þessum tíma þótti ekki kvenlegt og jafnvel stórhættulegt fyrir konur að klífa fjöll eða stunda útivist. Mikið var fjallað um slysið, ekki einungis á Íslandi heldur einnig erlendis. Fljótlega fór að komast á sá orðrómur að eitthvað gruggugt hefði verið á seyði þegar slysið átti sér stað. Ina sá að hún yrði ekki í rónni fyrr en hún kæmist til Íslands til að leiða málið til lykta. Hófst nú undirbúningur að Íslandsferðinni.  

Ina von Grumbkow

Ina von Grumbkow

Með Inu til Íslands kom jarðfræðinginn Hans Reck, sem var vinur Walthers von Knebels. Meðfram hinum eiginlega tilgangi fararinnar stundaði hann rannsóknir á þeim svæðum sem Ina heimsótti. Ina fékk styrk frá prússneska vísindafélaginu til að standa straum af þeim kostnaði sem hlaust af svo viðamiklu ferðalagi. Ina og Hans komu til Reykjavíkur 24. júní 1908. En þess má geta að í ferðalagi Inu og Recks náði Reck að klífa Herðubreið fyrstur manna 13. ágúst 1908.

Hvorki Ida né Ina kunnu íslensku og þurftu því að gera sig skiljanlegar á dönsku, þýsku eða ensku. Málakunnátta Íslendinga var, á þessum tíma, af skornum skammti en Ida réði sér íslenskan leiðsögumann við komuna til landsins, Sigurð Sumarliðason og hann sá að langmestu leyti um öll samskipti við Íslendingana. Samskipti þeirra tveggja fóru svo að mestu fram á ensku. Þá verður henni nokkuð tíðrætt um málfarsmisskilning á milli hennar og samferðamanna hennar og gerði gjarnan lágstemmt grín af því hvernig hún misskildi einstök orð þrátt fyrir langt og strangt nám í erlendum tungumálum!

Í frásögnum sínum hefur Ida Pfeiffer orð á því að erfitt hafi verið að finna fylgdarmenn sem unnt var að treysta og gætu talað dönsku. Þá kemur fram í frásögnum hennar að henni hafi þótt erfiðast að geta ekki tekið þátt í samræðum á dönsku við danskt fólk af heldri stétt. 

Hvorug kvennanna gat tjáð sig við íslenskt alþýðufólk. Ida Pfeiffer virðist þó hafa lært nokkur orð í íslensku en ekki þannig að hún gat haldið uppi samræðum.

Ina sættist að lokum við örlög ástmanns síns hér á landi. Þegar hún hafði lagt land undir fót og dvalið við Öskju og upp á hálendi Íslands gerði hún sér betur grein fyrir því ógnarafli sem íslensk náttúra gat búið yfir. Hún sá fyrir sér bátinn á vatninu og skildi að náttúran og aðstæðurnar áttu þarna hlut að máli.

Víti og Öskjuvatn

Víti og Öskjuvatn

Ferðabækur þeirra Idu og Inu eru ólíkar. Ina fékk ólíkt betri dóma og umsagnir en Ida, líklega helgast það af því að Ina ferðaðist víðar og gerði sér far um að skilja og þekkja land og þjóð á meðan Ida dróst að heldra fólki og náði í raun aldrei tengingu við Ísland og/eða Íslendinga. Hinsvegar voru þær vissulega frumkvöðlar á sínu sviði. Konur sem voru tilbúnar til að fylgja draumum og þrám, þrátt fyrir mótrök samferðamanna og háværar úrtöluraddir.

Þá vilja margir meina að lélegar umsagnir um þessar annars frambærilegu ferðalýsingar hafi helst helgast af þeirri staðreynd að höfundarnir voru erlendar konur en ekki innfæddir karlmenn. Í seinni tíð má þó segja að virðing og vegsemd Inu hafi heldur risið þar sem íslenskir þjóðgarðsverðir, skálaverðir og fleira áhugafólk hefur haldið nafni hennar á lofti og beint sjónum sínum að henni sem frumkvöðli. Allavega er óhætt að fullyrða að orð hennar um landið lýsa svo sannarlega ást hennar og virðingu á landinu.

“Segið þeim að jafnvel þótt leiðir okkar liggi ekki framar til Íslands, þá munum við aldrei gleyma eylandinu þínu stóra og fagra.”

Eftir því sem árin hafa liðið og rannsóknir og vangaveltur meira beinst að þætti kvenna í veraldarsögunni og þá ekki síst hvernig þær nálguðust markmið sín og drauma hafa augu manna beinst að Idu og hennar einstöku afrekum. Hún fór vissulega ótroðnar slóðir. Þó hún hafi hlotið óvæga dóma fyrir verk sín á Íslandi hlaut hún oft á tíðum jákvæða umfjöllun utan landsteinanna. Hún var vissulega kona sem hysjaði upp um sig buxurnar og framkvæmdi það sem aðeins var talið karlmannsverk á þeim tíma. Hún var ferðalangur sem fór um heimsins höf, óhræddur rannsakandi og endalaust forvitin um önnur lönd, fólk og fyrirbæri. Ida ólst upp á heimili foreldra sinna, dóttir kaupmannsins í bænum, sem hafði ekki mikið á milli handanna, og framan af eina stúlkan alin upp í drengjahópi. Fljótlega neitaði hún að klæðast kjólum og krafðist þess að leika sömu leiki og bræður sínir. Heimilisverk og bróderí hentaði henni ekki. Hún eignaðist börn ásamt manni sínum en til að hafa ofan af fyrir fjölskyldunni kenndi hún ritun og á píanó. Einhvern veginn tókst Idu að læra ensku og dönsku án þess að fara í skóla og 45 ára, þegar hún var búin að ala upp eigin börn, lagði hún land undir fót og skráði ferðir sínar fram til dauðadags. Ida Pfeiffer dó 63 ára eftir að hafa barist lengi og hetjulega við malaríu.

Það er vel þess virði að gefa þessum konum nánari gaum þar sem hér eru á ferðinni kvenhetjur sem hafa ef til vill fallið í skuggan af frægari landkönnuðum þessara tíma t.d. þeim Edmund Hillary sem fyrstur sigraði Everest, Roald Amundsen sem stýrði Suðurskautsleiðangrinum 1910 - 1912 eða Fridtjof Nansen. Ferðalög og sögur Idu og Inu voru og eru sennilega lágstemmdari en alls ekki síðri.

Heimildir:

Pfeiffer, Ida: Eine Reise nach Skandinavien und Island im Jahre 1845

von Grumbkow, Ina: Ísafold. Reisebilder aus Island

https://www.mbl.is/greinasafn/grein/1235883/

http://millimala.hi.is/wp-content/uploads/2016/01/I%CC%81-fo%CC%81tspor-fer%C3%B0alanga.-Af-fer%C3%B0aly%CC%81singum-Idu-Pfeiffer-og-Inu-von-Grumbkow.pdf

https://www.outsideonline.com/2399949/ida-pfeiffer-first-solo-female-travel-writer