Enn eimir af þeirri skemmtilegu hefð Íslendinga að fylgjast með veðri, þó að áherslur hafi breyst og við ekki lengur eins háð góðri tíð, þó vissulega sé hún skemmtilegri.
Á Íslandi til forna var gjarnan talað um veðurfylgjur. Menn vildu meina að þær væru verur í dýrslíki, gjarnan dökkleitar og ferfættar. Veðurfylgjur gerðu vart við sig á undan vondum veðrum, gaddviðri og hríðarbyl. Stundum heyrðist til þeirra þó að ekki sæist í þær. Veðurfylgjur sóttu gjarnan að fólki með svefnóreiðu eða svefnrask. Gátu þær jafnvel gert fólki mikinn óleik í þeirra daglega lífi, með þeim hætti að menn gátu orðið nánast óvinnufærir svo dögum eða mánuðum skiptir.
Veðurfylgjur gerðu vart við sig á undan vondum veðrum, gaddviðri og hríðarbyl. Stundum heyrðist til þeirra þó að ekki sæist í þær.
Nú til dags höfum við minni áhyggjur af veðurfylgjum og þær nánast aldrei nefndar á nafn, sem betur fer. Hinsvegar látum við okkur veðrið varða, hvort heldur sem er í þéttbýli eða dreifbýli. Margur lætur sig dreyma um snjólausan vetur á meðan aðrir kjósa ekkert fremur en drifhvítt nýsnævi.
Þeir sem njóta þess að þeysast um fjöll og fyrnindi á veturna á tveimur jafnfljótum, skíðum, bretti, snjósleðum eða öðrum viðlíka búnaði kjósa þess heldur að frysti og kólni, geri svo mikla úrkomu og stytti upp að lokum. Þá sjá menn það fyrir sér að hægt verði, í slíkum aðstæðum, að spenna undir sig skíði eða nýta annan “rennibúnað” og bruna niður brekkurnar eða ganga í þeim á tveimur jafnfljótum. Það fær fátt staðist froststillur og fannhvíta mjöllina.
Hinsvegar er því þannig farið, hér á norðurhjaranum, að sjaldnast eða aldrei getur maður ætlast til þess að fá "gott" veður. Íslendingar verða að aðlaga sig að því sem í boði er; klæða sig eftir veðri og vindum og gera heldur ráð fyrir slæmu veðri en góðu. Það dugir skammt að bíða eftir blíðviðrisdögunum. Margur bendir á að veðurfar sé einungis hugarfar, - og margt til í því.
Annars var hér áður fyrr töluverð trú á því að veður breyttist um helgar eða upp úr þeim og þá til batnaðar. Þó hefur mönnum hugnast síst að rigni að vetri og hér kemur örstutt ráð um hvernig snúa skuli regni í þerri. Ráðið er að setja upp stóran hatt og fara út í garð eða upp á hæð, þar skal taka hattinn ofan, veifa honum upp í loftið og kalla eða söngla í sífellu. “Rof, rof og rof, rof.” Ósagt skal látið hversu oft þetta ráð hefur dugað. En hitt látið fylgja að til forna var því haldið fram að þorrinn yrði góður ef hann byrjaði illa og nú skal hver hugsa fyrir sig um hvernig viðraði á upphafsdegi þorra, bóndadegi.
Heimildir:
Íslenzkir þjóðhættir eftir Jónas Jónasson frá Hrafnagili
Þjóðhættir og þjóðtrú eftir Þórð Tómasson