Gæfa og gjörvileiki

Draumar, þrár og óskir, ólíkar frá einum manni til annars, en allar stefna í sömu átt, að bættu og hamingjuríkara lífi.

Margt og mikið hefur verið rætt og ritað um hvernig fanga skuli veruleikann þannig að úr verði farsæld og velfarnaður, - og sitt sýnist hverjum.  

Sálfræðingurinn Mihaly Csikszentmihalyi (f. 1934) hefur meðal annars lagt sig fram um að rannsaka tilurð góðs gengis, ævarandi lukku og mikilvægi sköpunargáfunnar í því samhengi. Hann hefur notast við hugtakið flow eða flæði í kenningum sínum um mátt og megin hamingjunnar. Csikszentmihalyi hefur bent á að til þess að ná því að verða hamingjusamur þurfi sá hinn sami að upplifa hið eina sanna flæði, í því sem hann tekur sér fyrir hendur eða í því sem hann brennur fyrir.

Hann hefur notað hugtakið flow eða flæði í kenningum sínum um mátt og megin hamingjunnar.

matterhorn-hornligrat-cold-climb-53213.jpeg

Flæðinu hefur hann  lýst sem ástandi þar sem hinum fullkomna takti er náð, við hið innra og hið ytra. Allar athafnir, hreyfingar og hugsanir nái þar að vera í fullkomnu samspili. Allt í umhverfinu gleymist, nema verkefnið sem verið er að fást við á þessari stundu og á þessum stað. Tilfinningin er áreynslulaus, eins og að detta í algleymi eða verða gagntekinn.

Þá hefur Csikszentmihalyi bent á að allir geti upplifað flæði svo lengi sem ákveðnar forsendur séu fyrir hendi. Þannig skiptir máli að einstaklingurinn kunni að setja sér skýr markmið, hafi yfirsýn yfir eigin þarfir og langanir og stjórni tilfinningum sínum, hegðun og samspilinu þar á milli. Hann þarf að vera óhræddur við að fylgja draumum og þrám. Þá þarf sá hinn sami að fá stöðuga endurgjöf á verk sín, - virkar þetta eða virkar þetta ekki? Hann þarf að skilja og greina frammistöðu sína og meta næstu skref. Þá er mikilvægt að hann nái jafnvægi á milli áskorana og færni, farsælasta niðurstaðan fæst þegar fullkomið jafnvægi næst þarna á milli. Með öðrum orðum, verkefnin mega ekki vera of auðveld og heldur ekki of erfið.

Þannig skiptir máli að einstaklingurinn kunni að setja sér skýr markmið, hafi yfirsýn yfir eigin þarfir og langanir og stjórni tilfinningum sínum, hegðun og samspilinu þar á milli.

Af þessum forsendum gefnum telur Csikszentmihalyi að allir geti upplifað flæði við allar mögulegar athafnir og aðstæður, talað hefur verið um flæði hjá tónlistarmönnum, myndlistarmönnum, hönnuðum, klettaklifrurum, hlaupurum og ísklifrurum svo eitthvað sé nefnt.

Í beinu framhaldi af ofansögðu má segja að að farsælasta uppskriftin að góðu gengi og ævarandi lukku felist í því, að ná hinu fullkomna flæði, hafa ástríðu og ná þannig árangri. Með því er hámarks hamingja tryggð.

 
Heimild:
Csikszentmihalyi, Mihaly: Finding Flow. The Psychology of engagement with everyday life.
https://www.ted.com/talks/mihaly_csikszentmihalyi_on_flow