"...Hillir við himinblámann höfuðdjásn íslenskra fjalla."

"...Hillir við himinblámann höfuðdjásn íslenskra fjalla."

Sjálf miðjan, Víti í skjóli drottningarinnar, Herðubreiðar. Nafngiftin getur ein og sér staðið sem upphrópun í miðri setningu. “A Lighthouse”, þetta fallega vatn sem sést víða að úr lofti. Paradís eða Víti, kalt og heitt, ást og hatur. Einfalt og flókið í senn. Þetta vatn sem er “afleggjari” af svo miklu stærra vatni, sjálfri Öskjunni. Móðir og barn, fullkomin tvenna. Fjölskylduferð að hausti. Fullkominn dagur á Íslandi.

Fyrir sunnan söl og þara...

Fyrir sunnan söl og þara...

Hvítasunna árið 2017. Hér er vítt til veggja og hátt til lofts, ekkert nema víðfemt endaleysið. Horfi til hafs í Vatnsfirði á vestanverðu landinu, set mig í spor Flóka Vilgerðarsonar sem oftast er nefndur Hrafna-Flóki og hugsa um tilkomumikla nafngiftina ÍSLAND. Ja, hér stóð hann maðurinn, fjörðurinn fullur af ís og gaf landinu þetta mikilfenglega nafn.

Girðingarstaurar bera býlinu vitni...

Girðingarstaurar bera býlinu vitni...

Í upphafi þorra árið 2017 skundaði ég af stað þegar norðannæðingurinn bauð upp á nokkurra daga uppstyttu.

Það þarf svosem ekki að fara langt til að finna afdrep og hlaða batteríin og oft vel ég Kjarnaskóg við Akureyri sem er sannkölluð útivistarperla.

Þennan dag lá nýfallinn snjór yfir öllu og nýlega búið að troða gönguskíðabrautina sem hlykkjast um skóginn í viðmiklu stígakerfi.