Margir á ferðinni þennan fallega morgun. Mér líður vel og ég geri mér far um að halda góðum takti. Hægi á mér í lengstu brekkunum og nýt útsýnisins, ferðin sækist vel. Loksins stend ég á tignarlegum Súlutindi sigurreif. Lít yfir fallegan fjörðinn, haustlitir klæða búsældarlega sveit og ég virði fyrir mér landið góða sem kennt er við ís og eld. Geislar á brúnum fjalla kalla á að fleiri tindar verði sigraðir þennan dag.
Ég tek ákvörðun um að halda áfram til suðurs. Já, Súlutindar eru tveir, - því ekki að halda á Syðri-súluna líka?
Það tekur ekki langan tíma að skokka á milli þessara tveggja tinda. Einstök fegurð, grá, brún leir- og sandsteinslögin setja svip sinn á tignarlegt landslagið og útsýnið stórfenglegt. Á Syðri-súlu lít ég til himins og sé að ský dregur fyrir sólu og ekki ólíklegt að úr verði rigning. Ég teiga í mig ferskan andblæ og ákveð svo að halda áfram. Við blasa fleiri tindar, Krummarnir tveir, Bóndinn og Þrírklakkar, berskeggjuð bláfjöll, himneskar grjóthrúgur. Tek nú stefnuna á augljósan berggang sem ég næ að klöngrast yfir og læt mig dreyma um stóra Krumma í framhaldinu. Stefni þangað taktvissum skrefum. Finn fyrir þreytu í fótunum og lít á klukkuna, tíminn flýgur áfram og ég sigra tindinn. Glaðbeitt stend ég upp á sótsvörtum Krummanum sem gefur lítið upp á þessum fallega haustdegi. Horfi yfir í hlíðar Staðarbyggðarfjalls austan megin fjarðar og tek ákvörðun um að halda heim á leið.
Finn fyrir þreytu í fótunum og lít á klukkuna, tíminn flýgur áfram og ég sigra tindinn.
Stefnan tekin niður á láglendið til austurs, í átt að Hrafngili í Eyjafjarðarsveit. Hleyp niður í móti eftir augljósum hrygg, grasigrónum, en hér og þar grjót og skriður. Ég nánast komin á flatann þegar við taka óendanlega margir skurðir, kviðristur í landslagi. Mikið bras að finna leið yfir þá einhverja, misstórir og miserfiðir yfirferðar. Ég læt hugann hvarfla, spái í tilgangi og notagildi. Brölti upp úr einum skurðinum og hryn því næst ofan í annan. Velti fyrir mér mokstrinum, greftrinum og brasinu við að koma vinnuvélum upp í þessar fallegu hlíðar til þess eins að ræsta út vatn. Hér eru engar skepnur sjáanlegar og ekki virðast túnin vera slegin. Afhverju gera menn skurði í landslag?
Samanlögð lengd þeirra skurða sem grafnir hafa verið á Íslandi er um 34 þúsund kílómetrar. Þeir næðu því sem næst í kringum hnöttinn. Þessir skurðir hafa þurrkað upp um 4200 ferkílómetra lands. Jú, margir þeirra hafa svo sannarlega þjónað tilgangi sem grunnur að úrvals beitarlandi fyrir búfé og á sínum tíma styrkti Ríkið meir að segja bændur í því að grafa skurði, allt fram til ársins 1987, en maður spyr sig er allt það land sem hefur verið þurrkað upp í gegnum tíðina í notkun?
Skurðirnir leiddu til algjörrar byltingar í íslenskum landbúnaði og enn reiðir stór hluti af íslenskum landbúnaði sig á land sem hefur verið ræst fram á þennan hátt en menn fóru kannski offari? Þá voru jafnvel beitilönd ræst fram sem nýttust aldrei og stundum voru skurðir nýttir sem jarðamerki í stað girðinga vegna þess að það fékkst styrkur fyrir það. Þá eru til dæmi um heilu firðina, eins og Loðmundarfjörð, þar sem heilmikið var ræst fram en nokkrum árum síðar var fjörðurinn kominn í eyði og landið aldrei notað til ræktunar. Það er þetta sem flýgur í gegnum huga minn á meðan ég brölti og brasa í hlíðum Eyjafjarðarsveitar. Hverju hafa skurðirnir skilað okkur?
Já, svona stór aðgerð þarf undirbúning og tíma. Þetta snýst ekki einungis um að rusla mold í skurðina.
Nú komin niður á malbikið og á aðeins stutt eftir að Hrafnagili. Finn að ég er að þreytast og ánægð með að það er stutt eftir. Man þá eftir umræðum um endurheimt á skurðum og aðgerðaáætlun stjórnvalda árið 2010, sem þá náði ekki fram að ganga. En síðan hefur aðeins þokast. Já, svona stór aðgerð þarf undirbúning og tíma. Þetta snýst ekki einungis um það að rusla mold í skurðina, stundum þarf að styrkja brúnirnar, oft þarf að gera stíflur og eins þarf að skoða hvaða jarðlög verið er að vinna með. Allt þarf vinnu og eftirfylgni.
Tuttugu milljónum var varið til verkefnisins árið 2016. Fimm verkefnum var lokið árið 2017 og afraksturinn var 85 hektarar af endurheimtu votlendi, tæplega einn ferkílómetri. Enn er mikið verk fyrir höndum. Skurðir í íslensku landslagi, kannski ekki þrotlaus vinna en verðugt verkefni næstu kynslóða. Á meðan brölti ég og brasa yfir, að því er virðist, endalausa skurðina með brosi á vör og þakka í huganum fyrir góða hlaupaæfingu sem fólst í þessum litlu smá brekkum, skurðunum.
http://www.ruv.is/frett/votlendi-mogulega-meira-um-rask-en-endurheimt
Íslensk votlendi, verndun og nýting. Ritstjórn: Jón S. Ólafsson. 1998