Féleg fylgd

Það er snemma vors. Höggvís vindur lemur húsið, stíf suðvestan átt, ógurlegur belgingur. Snæviþaktar grundir. Lítill sólargeisli læðist yfir grákalt haf og staðnæmist í hvítri brekku hinumegin fjarðar. Ég læt hugann reika, hef látið mig dreyma um örstuttan skíðatúr í marga daga en ekki átt heimangengt vegna veðurs. Hugsa svo með mér að ef til vill er lygnara hinum megin fjarðar, þar sem sólin skín og ávalar heiðar skýla fallega fannbörðum brekkunum. Skutla skíðum og tilheyrandi í bílinn og stefni til sólar, ákveð að láta á það reyna.

Nú komin á áfangastað, stödd við rætur Ysta-Víkur fjalls við austanverðan Eyjafjörð. Legg bílnum á nærliggjandi slóða og kippi búnaði út: skíðum, skinnum, bakpoka og tilheyrandi. Upp á fjallið hefur verið lagður augljós gönguslóð frá Víkurskarði en í þetta skipti ákveð ég að halda á fjallið frá bóndabýlinu Ystu-Vík, stöndugu býli í Grýtubakkahreppi, spenni skíði og skinn, tékka á ýli, skóflu og stöng og arka af stað. Komin vel á veg og skima yfir fjörðinn, síbreytilegan. Greinilegur vindagnýr í vestri en hér og nú fjallaþögn fegurst hljóða. Púl og púst, ein í vetrarstillunni, fátt sem truflar einstaka kyrrð. Flækingsgróður og kjarr kíkir upp úr hvítri mjöllinni, lágvaxinn og örlítið vandræðalegur.

Komin vel á veg og skima yfir fjörðinn, síbreytilegan. Greinilegur vindagnýr í vestri en hér og nú fjallaþögn fegurst hljóða. Púl og púst, ein í vetrarstillunni, fátt sem truflar einstaka kyrrð.

Eyjafjörður í vetrarstillu

Eyjafjörður í vetrarstillu

Vírgirðing, sem ég veiti ekki sérstaka eftirtekt, en tek eftir því að hún kippist til þegar ég skíða yfir hana, hugsa með mér að þarna fari um girðinguna örlítill norðlenskur jarðskjálfti en út undan mér finnst mér ég sjá dökka þúst skáskjóta sér frá mér. Rjúpuspor og snjótittlingar á flugi: félagslyndir, tilla fæti á steina og grjót; einn fyrir alla og allir fyrir einn. Áfram held ég skref fyrir skref, horfi á skip stíma út fjörðinn, Hrísey teygja úr sér og sólstafi skríða vetrarhiminn.

Heyri þá furðulegt gagg, undarlegt hljóð, obbolítið kvart, staldra við og lít í kringum mig en kem ekki auga á neitt sem ég get tengt við þennan annarlega hljóm. Held áfram, ímynda mér að þarna sé undirmeðvitundin að plata mig. Áfram upp í mót, upp á augljósan hrygg sem leiðir upp á tindinn, en þá verður kveinið aðgangsharðara. Doka við og sé þá tófu standa álengdar, staldra við reigja sig og beygja og mæna á mig. Þetta reynist vera læða, fallega dökkbrún með silfruðu yfirbragði. Ég hugsa með mér: Ja, hún stekkur í burtu strax og ég held áfram.“  Ég tek nokkur skref, en þá er eins og hún bíði eftir mér.

Doka við og sé þá tófu standa álengdar, staldra við reigja sig og beygja og mæna á mig. Þetta reynist vera læða, fallega dökkbrún með silfruðu yfirbragði.

Áfram höldum við, ég og lágfóta, skref fyrir skref upp í móti. Ég læt mér detta í hug að þetta háttarlag sé ekki eðlilegt en held þó áfram. Læðan fylgir mér upp á hrygginn, nokkrum metrum frá. Ég fóta mig áfram á augljósri snjórönd en hún í grjótinu, léttfætt og liðug. Þegar við erum loksins komnar upp á vörðu Ysta-Víkur fjalls hugsa ég með mér: Nú hlýtur hún að stökkva í burtu“  en það er öðru nær. Læðan staldrar við, starir á mig, bænaraugum, eins og hún bíði þess að fá einhverskonar virðingarvott fyrir fylgdina. Ég tek upp nesti, hún kemur nær, hnusar og þá sé ég blóðugan kjaftinn. Tófan hefur meitt sig við að bíta í og bjástra við vírinn neðar í brekkunni og sækist nú eftir meðaumkun. Ég hendi matarbita sem allra lengst frá mér og lágfóta gleypir hann í sig og stekkur svo af stað.

Þarna var tófan búin að fá sitt fyrir að vísa mér veginn upp á fallega mótaðan tindinn og lét sig svo hverfa, sátt. Ég ríf skinn undan skíðum og spenni á mig poka, læt mig svo líða niður tignarlega brekkuna sem áður lék að börnum og lömbum en grúfir sig nú niður undir fannafargi. Ein í vetrarkyrrðinni, fátt sem stenst fallegar skíðabrekkur, íslenskt vetrarveður og fallega náttúru. Takk fyrir refurinn, móinn og fannaslóðin.