Jólatréð

Þetta var í þá daga þegar vetrarhimininn var stjörnubjartur, norðurljósin dönsuðu á tilkomumikilli himinhvelfingunni og fannfergið meira en í manna minnum. Froststillur höfðu verið einkennandi fyrir febrúarmánuð þetta árið. Langur snjóakafli fyrri hluta vetrar og svo endalaust frostið.

Nokkrar unglingsstúlkur á Akureyri ákváðu að stíga út fyrir eigin þægindaramma. Fastráðið var að leggja upp í langferð á gönguskíðum, þramma út úr húsi og áleiðis upp til fjalla. Undirbúningur fór nú í hönd.

Gönguskíðin dregin út úr bílskúrum. Sumar áttu svo gott að eiga einhverjar pjötlur til að setja undir skíðin, til að betra væri að fóta sig upp í móti. Aðrar þrömmuðu um á svokölluðum rifflum og skutluðu undir skíðin umtalsverðu klístri eða áburði, létu sér nægja að taka tvö skref fram og eitt skref aftur-á-bak upp í móti.  

Ungu konurnar voru ákveðnar í að ekkert skyldi stoppa þær. Þær gætu allt sem þær ætluðu sér og væru í sjálfum sér ofurkonur þessa tíma. - Ósigrandi í hverri þraut. Fyrir leiðangurinn var ákveðið hvert markmiðið yrði. Jú, skíðaferð að vetri, einhver spölur genginn með birgðir á bakinu og sofið í snjóhúsi. Ekkert skyldi aftra okkur, - ekki einu sinni veðrið.

Því allra helsta var pakkað í grindarbakpoka sem tíðkuðust á þessum tíma, veglegur stafli af brauðsneiðum, hraðfiskur, kjöt og annað góðgæti sem þótti ómissandi, svefnpoki, dýna og hlýr fatnaður.

Um þetta leyti lágum við yfir ævintýrabókum, frásögnum ferðalanga á pólana, upplýsingum um menn sem sigruðust á hæstu fjöllum heims og fleiri krassandi lýsingum. Auðvitað töldum við okkur ekki vera eftirbátar þessara manna þó að fjalllendið væri umtalsvert lægra og aðstæður á allan hátt aðrar. Þarna lásum við meðal annars um smíði og notkun á sleðum eða svokölluðum púlkum sem notaðar voru til að ferja farangur frá A - B. Auðvitað fannst okkur ekkert sjálfsagðara en að við yrðum okkur úti um eða smíðuðum svipaðan sleða.

Þarna lásum við meðal annars um smíði og notkun á sleðum eða svokölluðum púlkum sem notaðar voru til að ferja farangur frá A-B. Auðvitað fannst okkur ekkert sjálfsagðara en að við yrðum okkur úti um eða smíðuðum svipaðan sleða.

Styttist nú verulega í ferðina og séð fram á að ekki næðist að snikka sleða til fyrir umrædda ferð. Því var brugðið á það ráð að taka til handagagns neðri hlutann af gömlum, þreyttum sparksleða og festa í hann veglegan kaðal sem við bundum um mittið með tilheyrandi hnútavinnu. Nú varð að treysta því að sleðinn yrði til friðs í ósléttu fjalllendinu.

Þrammað út úr húsi á föstudagskvöldi með tilheyrandi útbúnað. Fjórar saman í einni halarófu. Stefnt á fjalllendið fyrir ofan Akureyri. Túrinn skotgekk framan af. Farangurinn sæmilega stöðugur og við alsælar með eigin útgerð. Mikið rætt um grip skíðanna og augum gjóað aftur á bak á traustan sleðann. Á hann höfðum við skellt einum grindarbakpoka, einmitt þeirrar sem fékk það hlutverk að draga gripinn.

Við vorum komnar vel á veg. Upp á svokölluðum Súlumýrum fór að blása og færið breyttist verulega. Það sem áður var gljúp mjöll sem auðvelt var að skíða í gegnum varð nú vindblásinn, mishæðóttur, harðpakkaður snjór. Áttum við nú fullt í fangi með sleðagarminn, oftar virtist hann snúa öfugt en rétt og hvorki bakpoki eða annar farangur toldi ofan á honum. Sleðinn góði var nú orðinn meiri dragbítur en gleðigjafi.

Áttum við nú fullt í fangi með sleðagarminn, oftar virtist hann snúa öfugt en rétt og hvorki bakpoki eða annar farangur toldi ofan á honum.

Mynd: HSP

Mynd: HSP

Vindhraðinn ógurlegur og skafrenningur sem gerði okkur lífið leitt. Ræddum hvað ætti að taka til bragðs. - Draga sleðann áfram, farangurslausan eða hreinlega að skilja hann eftir? En þá var eins og svarið kæmi fjúkandi til okkar.

 

Allt í einu birtist okkur barrivaxið jólatré úr miðri auðninni, um metri á hæð. Okkur rak í rogastans. Einhvern veginn hafði hríslan fokið upp á miðjar Súlumýrar eftir glaum og glys jóla og fauk nú um í norðanáttinni. Stóru fargi var af okkur létt, - sleðinn fékk hér með hlutverk! Auðvitað gætum við tjóðrað jólatréð niður á sleðann og nýtt okkur þennan heillagrip til góða. Hvassviðrið ágerðist en ofurkonur síðustu aldar ekki að baki dottnar, brösuðum við að hnýta jólatréð á sleðann og héldum svo af stað, áfram um auðnina.

Skemmst er frá því að segja að það voru alsælar skíðakonur sem lögðust til hvílu þetta kvöld ofarlega í hlíðum Súlna. Sérhannað snjóhús með fordyri, hvílustaður fyrir hverja og eina, eldhúskytra, vel staðsettur prímus og ekki skyggði á að inn í íshöllinni miðri gat á að líta fallegt jólatré sem dregið hafði verið dágóða vegalengd á sérhannaðri púlku sem aldrei var notuð aftur eftir þessa ferð.