Selir eru ekki óalgengir við Íslandsstrendur og oft gaman af þessum forvitnu en oft á tíðum styggu skepnum. Þá er til ýmiskonar fróðleikur um seli og ótal þjóðsögur tengjast þessum skemmtilegu dýrum.
Eins og svo oft áður á ferð um fjöruna við Eyjafjörð og kom þá auga á tvo seli, annar flatmagaði á grjóti í fjöruborðinu en hinn synti í fjörunni. Mundi þá eftir þjóðsögu sem á rætur sínar að rekja til Færeyja.
Í þjóðsögunni segir frá ungum manni sem er var á leið um strandlengju í vík einni á nýársnótt. Úti í víkinni kom hann auga á selshami og við nánari eftirgrennslan sá hann verur, ýmist á kafi í sjónum eða á sundi í öldunum. Maðurinn tók upp einn selshaminn, hljóp í felur og fylgdist með þegar umræddar verur komu upp úr sjónum. Allt voru þetta ungar og fallegar konur sem tóku hver og ein einn selsham þangað til ein sat eftir grátandi. Þá gekk maðurinn niður í fjöruna og hitti ungu konuna, sem fylgdi honum heim og varð síðar meir eiginkonan hans. Þau eignuðust sjö börn á sjö árum en selshaminn faldi maðurinn í kistu inn í húsinu og bar lykilinn ávallt á sér. Svo var það einhverju sinni að maðurinn fór út og gleymdi að taka með sér umræddan lykil. Konan, sem var þá ein heim, gekk að kistunni, opnaði hana og tók upp selshaminn. Því næst gekk hún til sjávar og sást aldrei aftur. Eftir þetta þóttust menn sjá sel einn synda í fjörunni sérstaklega þegar börn voru að leik og henda til þeirra leikföngum. Maðurinn náði sér aldrei eftir þetta og vildu margir meina að hann hafði dáið fyrir aldur fram af harmi.
Ósagt skal látið um hvort að selirnir sem urðu á vegi mínum í fjörunni við Eyjafjörð hafi verið kvenfólk í selsham og það jafnvel talið afar ósennilegt, en hinsvegar í lagi að geta þess að selategundir við Ísland eru tvær, landselur og útselur, þótt iðulega komi norðlægari tegundir í heimsókn. Heimilt er að veiða seli hér á landi allt árið um kring, en undanfarna áratugi hefur verulega dregið úr selveiðum.
Landselur er ein útbreiddasta selategund heims. Þeir eru gráir, brún- eða gulgráir á litinn með svartar doppur en ljósir á kvið. Liturinn fer eftir árstíðum, hárafari, kyni og aldri. Hreifarnir eru frekar litlir og höfuðið stórt, nánast hnöttótt og augun stór. Landselur er algengastur við sunnan-, vestan- og norðanvert landið. Ekki er vitað hversu stór stofninn er en hann hefur eitthvað minnkað á síðustu árum.
Útselur er stór selur og útbreiddur báðum megin Norður-Atlantshafsins. Útselir eru mjög stórir, allt að helmingi stærri en landselir. Útselir hafa stórt og langt höfuð. Bæði augu og eyru sitja hátt á höfðinu sem gerir að útselurinn getur horft í kringum sig án þess að reisa höfuðið hátt upp úr sjávaryfirborðinu. Útselir eru mun styggari en landselir og halda sig lengra frá landi og því minni líkur á að rekast á þá í fjöruborðinu.
Selir hafa verið veiddir við landið allt frá landnámi. Helst voru þeir veiddir við árósa og í Hornafirði. Þá var talað um að selurinn sækti mikið í ljós og stundum kveiktu menn bál í fjörunni og veiddu þá svo í gryfjur. Skinn voru notuð í ýmislegt, til dæmis. við skógerð, en aðallega var selurinn nýttur til matar. Var þar flest nýtt, selkjötið og spikið soðið og borðað nýtt eða saltað, reykt eða súrsað og sama gilti um selshausana. Selur þótti yfirleitt ekki góður nema hreifarnir og hausinn. Þá þótti selkjötið skána til muna ef blóðinu var hleypt af honum. Grautur var stundum búinn til úr selsblóði en hann þótti ekki gómsætur matur. Kópar voru talsvert veiddir á 7. og 8. áratug 20. aldar vegna skinna, en þeir voru eftirsótt hráefni í tískufatnað. Selveiði lagðist síðar að mestu af vegna verðfalls á selskinnum og í dag er selveiði í miklu lágmarki. Þess má geta að selir við Íslandsstrendur eru ekki í útrýmingahættu.
Heimildir:
Sigfús Sigfússon: Ísl. þjóðs. IV, 187-188
Þjóðhættir og þjóðtrú eftir Þórð Tómasson
Íslenzkir þjóðhættir eftir Jónas Jónasson frá Hrafnagili